Vottun hf.

  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð
Faggilding

Hvað er faggilding?

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Faggilding er formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat. Faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar fer með umboð íslenskra stjórnvalda til að veita aðilum faggildingu hér á landi. Sviðið starfar samkvæmt lögum nr. 24/2006 um faggildingu o.fl. og birtir lista fyrir faggiltar stofur á Íslandi.

Faggilding vottunarstofu er bundin við ákveðna þjónustu, t.d. ákveðna stjórnunarstaðla, sem veitt er fyrirtækjum í tiltekinni starfsemi eða atvinnugrein. Kröfur ISO 17021-1 eru meðal annars að vottunarstofan sé:

- óháð þeim sem hún vottar;
- með skilgreint vottunarferli;
- ekki að veita ráðgjöf á sviði stjórnunarstaðla;
- með hæft starfsfólk sem hefur þekkingu á aðferðum, lagalegum kröfum og starfsumhverfi viðkomandi fyrirtækis, þ.m.t. tungumálinu.

Starfsemi vottunarstofa er ekki bundin í lög en sett hefur verið upp valfrjálst kerfi eða staðlaröð sem vottunarstofur geta fylgt. Alveg eins og fyrirtæki getur fengið vottun frá vottunarstofu, um að það reki t.d. virkt gæðakerfi sem uppfyllir alþjóðlega staðalinn ISO 9001, þá getur vottunarstofa fengið vottun, sem kölluð er faggilding, um að starfsemi hennar uppfylli kröfur ISO 17021-1. Starfsemi faggildingaraðila, eins og Einkaleyfastofunnar, er ekki vottuð en þessir aðilar eru í samtökum sem standa að gagnkvæmum viðurkenningum og vottunum.

Vottun hf. er faggilt af íslenskum stjórnvöldum til að votta gæðastjórnunarkerfi (ISO 9001) og umhverfisstjórnunarkerfi (ISO 14001) á tilteknum tæknisviðum.

 

 

Er faggilding alþjóðleg ?

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Já, faggildingarstarfsemi er starfrækt samkvæmt lögum hvers lands sem tryggir samræmi við alþjóðlega staðla og reglur. Á Íslandi eru þetta lög nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., sem kveða m.a. á um að sá aðili sem fer með umboð stjórnvalda til faggildingar hér á landi skuli vera aðili að Evrópusamtökum um faggildingu (EA) eða öðrum alþjóðlega viðurkenndum samtökum og hafa til hliðsjónar leiðbeiningarreglur sem þau gefa út og miða að því að samræma kröfur sem gerðar eru til faggildingar.

Faggilding gengur út á að votta samræmi aðila, sem prófa, skoða eða votta, við alþjóðlega kröfustaðla í staðlaröðinni ISO/IEC 17000. Kröfurnar sem þessir aðilar þurfa að uppfylla eru því alþjóðlegar. Í tilviki Vottunar hf. er um að ræða alþjóðlega kröfustaðalinn ÍST EN ISO 17021-1, sem allar faggiltar vottunarstofur á sviði vottunar stjórnunarkerfa í heiminum vinna eftir.

Faggilding er því í eðli sínu samræmd á alþjóðlega vísu og ekki hægt að draga faggiltar vottunarstofur í dilka og segja að sumar séu alþjóðlega faggiltar en aðrar ekki. Þannig getur vottunarstofa sótt um faggildingu til umboðsaðila stjórnvalds í sínu heimalandi eða hvaða öðru landi sem hún kýs og faggilt vottunarstofa getur veitt faggilta vottun jafnt innan sem utan þess lands sem veitt hefur henni faggildingu.

Mikilvæg forsenda þess að vottunarstofa geti veitt faggilta vottunarþjónustu utan heimalands síns er þó sú að hún uppfylli kröfur um tungumálakunnáttu og þekkingu á laga- og reglugerðarumhverfi viðkomandi lands. Ekki er hægt að veita fullnægjandi vottunarþjónustu:
  • án skilnings á innihaldi skjala og skráa viðkomandi fyrirtækis;
  • án þess að geta átt samskipti við starfsmenn fyrirtækis á máli sem þeir skilja;
  • án þess að þekkja þau lög og þær reglur sem um fyrirtækið gilda í viðkomandi landi.

Um þetta eru gerðar skýrar kröfur í þeim stöðlum sem þjónustan byggir á.

 

Er vottun Vottunar hf. faggilt?

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Já, Vottun hf. er með faggildingu frá íslenskum stjórnvöldum (Faggildingarsviði Einkaleyfastofunnar - ISAC) á vottun samræmis við staðlana ÍST EN ISO 9001 og ÍST EN ISO 14001. Vottun gæðastjórnunarkerfa og umhverfisstjórnunarkerfa hjá Vottun hf. er því faggilt vottun. Hvað aðra staðla varðar, eins og t.d. OHSAS 18001 og ÍST ISO/IEC 27001, þá mun Vottun hf. óska eftir útvíkkun á faggildingu sinni þegar nauðsynleg reynsla af vottun samræmis við þá er fengin. Nú þegar er í farvatninu umsókn um faggildingu vegna OHSAS 18001 og ÍST 85.

Skilgreining á umfangi faggildingar er einnig tengd svokölluðum tæknisviðum, þ.e. faggilding vottunarþjónustu tiltekins kröfustaðals, eins og ÍST EN ISO 9001, er afmörkuð hverju sinni við tæknisvið þeirra fyrirtækja sem eru með vottun. Þannig er Vottun hf. nú með faggildingu vegna ÍST EN ISO 9001 sem nær til tæplega helmings af þeim 39 tæknisviðum sem fram koma í flokkun IAF (International Accreditation Forum). Ef fyrirtæki, sem starfar á tæknisviði sem Vottun hf. hefur ekki áður veitt þjónustu á, sækir um vottun fer af stað ferli sem skilar faggiltri vottun til fyrirtækisins og útvíkkun á faggildingarvottorði Vottunar hf. Nánari upplýsingar um tæknisviðin og faggildinguna er hægt að fá á skrifstofu Vottunar hf.

 

Er faggilding sama og starfsleyfi?

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Nei. Vottunarstofa þarf ekki starfsleyfi og faggilding er líka valfrjáls. Alveg eins og fyrirtæki getur sótt um vottun getur vottunarstofa sótt um faggildingu. Allar vottunarstofur hafa hafið starfsemi sína án faggildingar og þurfa að bæta við faggildinguna þegar farið er að bjóða upp á nýja þjónustu, til dæmis þegar nýir vottunarstaðlar koma fram. Þegar vottunarstofa hefur aflað sér reynslu og er komin með rekstur sem stendur undir kostnaði við faggildingu er næsta skrefið stigið. Þær vottunarstofur sem eru með faggildingu reyna að nota sér hana til framdráttar í samkeppni við aðrar vottunarstofur. Ef faggilding væri forsenda þess að hefja starfsemi væri nær ómögulegt fyrir nýjar vottunarstofur að hefja rekstur.

Þessar upplýsingar koma fram á heimasíðu ISO:

“In most countries, accreditation is a choice, not an obligation and the fact that a certification body is not accredited does not, by itself, mean that it is not a reputable organization. For example, a certification body operating nationally in a highly specific sector might enjoy such a good reputation that it does not feel there is any advantage for it to go to the expense of being accredited. That said, many certification bodies choose to seek accreditation, even when it is not compulsory, in order to be able to demonstrate an independent confirmation of their competence.”

Vottun hf. er faggilt á tilteknum tæknisviðum vottunar stjórnunarkerfa tveggja stjórnunarstaðla, ÍST EN ISO 9001 og ÍST EN ISO 14001.

 Vottuð starfsemi

 

 

Upplýsingar um handhafa
gildra vottorða og umfang
vottana hjá Vottun hf.
fást á skrifstofu félagsins.


Vottun hf. —    NMÍ, Keldnaholti    —    112 Reykjavík    —    sími: 570-7200    —    fax: 522-9111    —    tp: vottun@vottunhf.is    —    kt: 590691-1439