Fyrirtækið Kanon arkitektar ehf. fékk nýlega vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt, skv. ISO 9001 staðli, hjá Vottun hf. Fyrirtækið hefur starfað frá árinu 1994 við arkitektúr og skipulag og veitir opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum arkitekta-, skipulags- og landslagsráðgjöf og þjónustu. Hjá Kanon arkitektum starfa arkitektar og landslagsarkitekt, samstillt sjö manna teymi fagfólks með fjölbreyttan bakgrunn og víðtæka þekkingu og reynslu á sínu sviði. Starfsmenn hafa allir löggildingu umhverfisráðuneytisins til að gera uppdrætti á sínu fagsviði og eru á lista Skipulagsstofnunar yfir skipulagsráðgjafa með tilskilin réttindi. Á meðfylgjandi mynd eru Halldóra Kristín Bragadóttir og Helgi B. Thóroddsen frá Kanon og Kjartan J. Kárason frá Vottun hf. Nánari upplýsingar um Kanon arkitekta ehf. má finna á heimasíðu fyrirtækisins.