Þriðjudagur, 09. apríl 2013 13:32
Vefstjóri
Vottun hf. hefur tekið yfir vottun á samræmi stjórnunarkerfa fyrirtækjanna Actavis ehf. og Actavis Group PTC ehf. frá erlenda fyrirtækinu SGS. Um er að ræða vottun á samræmi umhverfisstjórnunarkerfa þessara fyrirtækja við ISO 14001 staðalinn og á samræmi stjórnunarkerfa heilsu og öryggis á vinnustað við staðalinn OHSAS 18001. Kerfin ná til þróunar og framleiðslu lyfja vegna skráningar og til framleiðslu á lyfjum á föstu formi til inntöku.
Starfsemi Actavis-fyrirtækjanna er í Hafnarfirði en þau eru í eigu móðurfélagsins Actavis Inc. sem er með starfsemi í 60 löndum og hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Hjá Actavis á Íslandi starfa yfir 700 manns við þróun, framleiðslu og sölu samheitalyfja. Það er stefna fyrirtækjanna að starfa á ábyrgðarfullan hátt í samfélaginu og að í allri starfseminni séu umhverfissjónarmið, ásamt öryggi og heilsu starfsmanna, höfð að leiðarljósi. Nánari upplýsingar um starfsemi Actavis hér á landi eru á www.actavis.is.
Föstudagur, 08. mars 2013 09:11
Vefstjóri
Í desember síðastliðnum veitti Vottun hf. orkusviði Frumherja hf. vottun á gæðstjórnunarkerfi sitt. Frumherji er stærsta skoðunar- og prófunarstofa landsins auk þess sem fyrirtækið býður aðra þjónustu, svo sem sölumælingar og sölu raforku- og vatnsmæla.
Orkusvið Frumherja á og rekur vel á annað hundrað þúsund raforku- og vatnsmæla og felst þjónusta sviðsins í að útvega sölumælingar m.a. fyrir stærstu dreifiveitu landsins og nokkrar minni veitur.Vottaða gæðastjórnunarkerfið nær til starfsemi allt frá innkaupum til förgunar mælanna, þ.e. innkaup, uppsetningu, álestur, útskipti, viðgerðir, niðurtekt og förgun. Nánari upplýsingar um orkusvið Frumherja hf. er að finna á heimasíðu félagsins.
Fimmtudagur, 07. mars 2013 00:00
Vefstjóri
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur fengið vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt hjá Vottun hf. samkvæmt ÍST EN ISO 9001 staðli. Framkvæmdasýslan er stofnun sem heyrir undir fjármálaráðuneytið og fer með stjórn ákveðins hluta verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins. Stofnunin veitir ráðuneytum og ríkisstofnunum einnig ráðgjöf um byggingatæknileg málefni og undirbúning framkvæmda. Hlutverk stofnunarinnar er að vera leiðandi afl á sviði verklegra, opinberra framkvæmda með það að markmiði að bæta verklag og auka skilvirkni, hagkvæmni og gæði við framkvæmdir ríkisins.
Á meðfylgjandi mynd má sjá þær Bergljótu S. Einarsdóttur gæðastjóra FSR (t.v.) og Halldóru Vífilsdóttur aðstoðarforstjóra FSR (t.h.) halda á vottorði Framkvæmdasýslunnar. Nánari upplýsingar um stofnunina er að finna á heimasíðu hennar.
Fimmtudagur, 28. febrúar 2013 14:24
Vefstjóri
Verkís hf. hefur fengið vottun á umhverfisstjórnunarkerfi sitt hjá Vottun hf. Fyrirtækið er ein af stærstu verkfræðistofum landsins, með um 300 starfsmenn, og veitir þjónustu á öllum sviðum verkfræði. Verkís rekur uppruna sinn til ársins 1932 og er því jafnframt elsta verkfræðistofan hér á landi. Fyrirtækið hefur verið með vottað gæðastjórnunarkerfi frá 2007 og unnið markvisst að því að auka umhverfisvitund starfsmanna og bæta árangur sinn í umhverfismálum. Myndin hér að neðan er tekin við afhendingu vottorðsins. Frá vinstri eru Kjartan J. Kárason framkvæmdastjóri Vottunar hf., Sigþór U. Hallfreðsson gæðastjóri Verkíss hf. og Sveinn I. Ólafsson framkvæmdastjóri Verkíss hf.
Fimmtudagur, 28. febrúar 2013 14:15
Vefstjóri
Gildissvið vottunar á gæðastjórnunarkerfi Siglingstofnunar Íslands hefur verið víkkað út. Það náði áður til útgáfu alþjóðlegra atvinnuskírteina sjómanna samkvæmt alþjóðasamþykktum, útgáfu alþjóðlegra skemmtibátaskírteina, atvinnukafaraskírteina, útgáfu skírteinis verndarfulltrúa skipa og ferla vegna skráningar skipa. Nú hefur skipavernd, skipsskírteinum og eftirliti með skipum, búnaði þeirra og skoðunaraðilum verið bætt við. Viðbótin er gerð skv. tilskipun 2009/21/EB um samræmi við kröfur fánaríkis. Nánari upplýsingar um stofnunina og starfsemi hennar má finna á heimasíðunni www.sigling.is.
Föstudagur, 12. október 2012 10:16
Vefstjóri
Þann 28. september síðastliðinn fékk Vottun hf. afhent faggildingarskjal frá ISAC (Faggildingarsviði Einkaleyfastofu) við hátíðlega athöfn að viðstöddum gestum. Það var Sigurlinni Sigurlinnason hjá ISAC sem afhenti Kjartani J. Kárasyni framkvæmdastjóra Vottunar hf. skjalið. Einar Ragnar Sigurðsson tók meðfylgjandi myndir við þetta tilefni.
Fimmtudagur, 04. október 2012 13:39
Vefstjóri
Þann 22. júní síðastliðinn fékk arkitektastofan ASK Arkitektar ehf. gæðastjórnunarkerfi sitt vottað hjá Vottun hf. Stofan er í hópi stærstu arkitektastofa landsins og fæst við verkefni bæði á sviði arkitekta og innanhússarkitekta, s.s. hönnun nýbygginga, endurhönnun eldri bygginga, hönnun húsgagna, skipulag eldri byggðar og nýbyggingarsvæða, hönnunarstjórn og fleira. Nánari upplýsingar um starfsemina má finna á heimasíðunni www.ask.is.
Mánudagur, 10. september 2012 08:24
Vefstjóri
Vottun hf. hefur fengið faggildingu íslenskra stjórnvalda, fyrst fyrirtækja á sviði vottunar stjórnunarkerfa. Það er Faggildingarsvið Einkaleyfastofu, ISAC (Icelandic Board of Technical Accreditation), sem faggildir starfsemina en sviðið fer með umboð stjórnvalda til faggildinga hér á landi. Úttektir sviðsins á starfsemi Vottunar hf. stóðu yfir í maí og júní síðastliðnum í starfsstöð fyrirtækisins að Keldnaholti, auk þess sem úttektarmaður sviðsins fór á vettvang með starfsmönnum Vottunar hf. og fylgdist með vinnubrögðum þeirra. Í byrjun júlí lá svo fyrir að Vottun hf. hefði staðist þær kröfur sem faggildingarstaðallinn ÍST EN ISO 17021 gerir til vottunarstofa. Faggildingin nær til vottunar gæðastjórnunarkerfa (ÍST EN ISO 9001) og umhverfisstjórnunarkerfa (ÍST EN ISO 14001). Í framhaldinu verður unnið að því að faggildingin nái til annarra stjórnunarstaðla sem Vottun hf. tekur að sér að votta samræmi við, þ.e. OHSAS 18001, ÍST ISO/IEC 27001 og ÍST EN ISO 22000.
Föstudagur, 22. júní 2012 10:48
Vefstjóri
Stjórnsýslusvið Kópavogsbæjar hefur fengið gæðastjórnunarkerfi sitt vottað hjá Vottun hf. Auk stjórnsýslu sinnir sviðið margvíslegri þjónustu við önnur svið bæjarfélagsins, svo sem varðandi fjármál, starfsmannamál, lögfræðileg málefni, skjalastjórnun, upplýsingatækni og gæðamál. Rekstur þjónustuvers er einnig hluti af hinni vottuðu starfsemi sviðsins.
Upphafleg tillaga að gæðakerfi fyrir stjórnsýslu Kópavogsbæjar var samþykkt í bæjarráði í júlí 2008 og var gæðastefnan samþykkt í bæjarstjórn í mars 2010. Gæðahandbók var svo staðfest í febrúar 2011 og hefur innleiðing kerfisins staðið yfir síðustu misseri.
Myndin hér að neðan er tekin við afhendingu vottorðsins. Frá vinstri eru Páll Magnússon bæjarritari, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Ari Arnalds frá Vottun hf.
Mánudagur, 18. júní 2012 08:18
Vefstjóri
Þann 31. maí síðastliðinn fór fram úttekt á vottunarstarfsemi Vottunar hf. í húsakynnum félagsins hjá Nýsköpunarmiðstöð. Úttektin er liður í ferli til faggildingar á starfseminni sem nú stendur yfir. Það er Faggildingarsvið ISAC (Icelandic Board of Technical Accreditation) sem sér um faggildingarvinnuna en sviðið annast faggildingu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda skv. lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl. Til þessa hefur engin starfsemi á sviði vottunar stjórnunarkerfa fengið faggildingu hér á landi.
Faggildingarúttektinni mun ljúka í þessum mánuði með því að úttektarmaður Faggildingarsviðs kemur með í úttektir Vottunar hf. hjá viðskiptavinum hennar og fylgist með vinnubrögðum. Haft verður samband við hlutaðeigandi fyrirtæki til að fá samþykki fyrir þessu fyrirkomulagi.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá úttektarmenn að störfum í Grasagarðinum í Reykjavík, en Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar er með umhverfisstjórnunarkerfi sitt vottað af Vottun hf. Frá vinstri eru Sigurlinni Sigurlinnason frá Faggildingarssviði Einkaleyfastofu, Ari Arnalds frá Vottun hf. og Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg.
|
|