Fimmtudagur, 09. febrúar 2012 09:47
Vefstjóri
Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar ehf. (VJI) hefur fengið vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt hjá Vottun hf. Vottunin staðfestir samræmi gæðastjórnunarkerfisins við kröfur ISO 9001 gæðastjórnunarstaðalsins. VJI veitir verkfræðiþjónustu og ráðgjöf varðandi mannvirki, raforkukerfi og rafrænar stýringar svo og ráðgjöf á sviði rekstrar og stjórnunar. Hönnun rafkerfa hefur lengi verið aðalverksvið fyrirtækisins. VJI var stofnað árið 1960 og hjá henni starfa um 20 manns. Frekari upplýsingar um fyrirtækið er að finna á heimasíðu þess, www.vji.is.
Fimmtudagur, 09. febrúar 2012 09:40
Vefstjóri
Þann 21. september síðastliðinn fékk verkfræðistofan Raftákn ehf. vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt hjá Vottun hf. Fyrirtækið var stofnað árið 1976 á Akureyri og hjá því starfa nú um 25 manns í tveimur starfsstöðvum, á Akureyri og í Reykjavík. Raftákn starfar á rafmagnssviði og er rekið í þremur deildum sem eru byggingasvið, iðnaðarsvið og fjarskiptasvið. Nánari upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins er að finna á heimasíðunni www.raftakn.is.
Fimmtudagur, 09. febrúar 2012 09:22
Vefstjóri
Batteríið - arkitektar ehf. hefur fengið vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt skv. ISO 9001 staðli hjá Vottun hf. Fyrirtækið vinnur á alþjóðlegum mörkuðum og býður ráðgjafarþjónustu á sviðum arkitektúrs, skipulags og umhverfishönnunar. Það var stofnað árið 1988 og eru starfsmenn um 25 talsins. Fyrirtækið býr yfir umfangsmikilli reynslu af mannvirkjahönnun og skipulagsgerð og felst sérstaða þess í þekkingu á aðlögun bygginga að nánasta umhverfi og veðurfari, aðgengi og mótun vinnuumhverfis m.t.t. vinnuverndar. Nánari upplýsingar um Batteríið - arkitekta má fá á heimasíðu þess, www. arkitekt.is.
Fimmtudagur, 09. febrúar 2012 09:11
Vefstjóri
Vottun gæðastjórnunarkerfis Siglingastofnunar Íslands hefur verið breytt. Áður náði hún til útgáfu, áritunar og endurnýjunar á alþjóðlegum atvinnuskírteinum fyrir sjómenn samkvæmt STCW og STCW-F alþjóðasamþykktum, auk svokallaðra skemmtibátaskírteina (ICC). Nýtt vottunarskírteini nær að auki til atvinnukafaraskírteina, útgáfu skírteinis verndarfulltrúa skipa (SSO-skírteini) og ferla vegna skráningar skipa.
Föstudagur, 03. febrúar 2012 11:23
Vefstjóri
Þann 23. september síðastliðinn hlaut starfsemi Set Pipes GmbH í Þýskalandi vottun hjá Vottun hf. Fyrirtækið er dótturfélag Sets ehf. á Selfossi en Set hefur haft vottað gæðastjórnunarkerfi síðan 1997. Þýska fyrirtækið framleiðir foreinangruð stálrör í löngum einingum til notkunar í fjarvarmaveitum. Rörin eru einangruð með viðstöðulausri einangrunartækni, svokallaðri Conti-aðferð. Sögu Sets ehf. má rekja aftur til ársins 1968, þegar Steypuiðjan hóf framleiðslu á steynsteyptum fráveiturörum. Síðan hafa bæst við fjölmargar gerðir plaströra og rörakerfa til notkunar í hitaveitu-, vatnsveitu- og fráveitukerfum, auk hlífðarröra fyrir raflagnir og ljósleiðara.
Föstudagur, 16. desember 2011 14:38
Vefstjóri
VSB verkfræðistofa hefur fengið vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt samkvæmt ISO 9001 staðli. Fyrirtækið var stofnað árið 1987 í Hafnarfirði og sinnir fjölþættri verkfræðiþjónustu á fimm þjónustusviðum, sem eru verkfræðihönnun, framkvæmdaráðgjöf, verkefnastjórnun, fasteignaþjónusta og sérlausnir. Nánari upplýsingar um VSB, svo sem um gæðastefnu fyrirtækisins, má fá á heimasíðu þess, www.vsb.is.
Fimmtudagur, 01. september 2011 14:27
Vefstjóri
Byggðasamlagið Sorpa hefur fengið vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt hjá Vottun hf. Sorpa er fyrsta íslenska fyrirtækið á sviði úrgangsstjórnunar sem fær vottun samkvæmt ISO 9001 gæðastjórnunarstaðli. Vottun Sorpu nær til allra starfsstöðva félagsins, en þar er m.a. fengist við móttöku, meðhöndlun, vinnslu og urðun úrgangs, framleiðslu á metani ásamt hönnun og þróun á aðferðum og búnaði tengdum metannotkun og við sölu á endurvinnsluefnum (Góði hirðirinn). Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins má fá á heimasíðu þess, www.sorpa.is.
Föstudagur, 04. mars 2011 08:39
Vefstjóri
Þann 17. desember 2010 hlaut fyrirtækið VSÓ ráðgjöf ehf. vottun á umhverfisstjórnunarkerfi sitt samkvæmt ISO 14001 hjá Vottun hf. en það er auk þess með vottað gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001 staðli. Bæði stjórnunarkerfin ná til alllra þátta í starfseminni, þ.e. hönnunar, eftirlits og ráðgjafar á sviði byggingar-, rafmagns- og vélaverkfræði og umhverfis-, samgöngu- og skipulagsmála, auk verkefnisstjórnunar, áætlanagerðar og eftirlits með mannvirkjagerð.
VSÓ ráðgjöf ehf. var stofnað 1958 og eru starfsmenn rúmlega 40 talsins. Auk þess að starfa á Íslandi þá er fyrirtækið viðurkennd verkfræðistofa í Noregi. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu þess.
Fimmtudagur, 16. september 2010 09:07
Vefstjóri
Þjónustustöð og verkstæði N1 við Bíldshöfða 2 hefur fengið vottun á umhverfisstjórnunarkerfi sitt skv. ISO 14001 staðli. Um er að ræða þjónustustöð sem selur eldsneyti, smurefni, bílatengdar efnavörur og matvöru og þjónustuverkstæði með smurstöð, hjólbarðaverkstæði, almennu verkstæði og sölu á bílatengdum efnavörum. Þetta er fyrsta þjónustustöð og eldsneytissala sem fær slíka vottun á Íslandi. Stöðin býður auk hefðbundins eldsneytis upp á bæði metan- og bíódísel-eldsneyti. Þar er fært grænt bókhald og endurnýting er í hávegum höfð.
Föstudagur, 03. september 2010 14:41
Vefstjóri
Þann 14. júní síðastliðinn hlaut Strendingur ehf. - verkfræðiþjónusta vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt skv. ISO 9001 staðli. Fyrirtækið hefur unnið að því undanfarin ár að byggja kerfið upp en það nær til alhliða verkfræðiþjónustu og ráðgjafar á sviði mannvirkjagerðar, reksturs mannvirkja, útboða og samningagerðar. Strendingur er 15 ára gamalt fyrirtæki og hjá því starfa 10 manns. Sjá nánar heimasíðu félagsins.
|
|